Framfaralistinn í Flóahreppi býður fram til sveitarstjórnarkosninga í maí 2022.

Að framboðinu stendur fólk með fjölbreyttan bakgrunn, menntun og reynslu og með mikinn metnað og áhuga á sveitarstjórnarmálum.

Kynning hefur farið fram undir flipa frambjóðendur á fólkinu í fyrsta til tíunda sæti listans. 

Neðri röð frá vinstri:

1. Árni Eiríksson 2.Hulda Kristjánsdóttir 3.Walter Fannar Kristjánsson 4.Sigrún Hrefna Arnardóttir

Efri röð frá vinstri:

5.Haraldur Einarsson 6.Helena Hólm 7.Sveinn Orri Einarsson 8.Jakob Nielsen Kristjánsson 9.Rúnar Magnússon 10.Margrét Jónsdóttir

 

FLÓAHREPPUR FYRIR FJÖLSKYLDUNA

Flóahreppur er vel rekið sveitarfélag með rétt um 700 íbúa. Einn þáttur í grunnþjónustu sveitarfélaga er að sinna fræðslu- og uppeldismálum og er sá málaflokkur einn sá mikilvægasti þegar fjölskyldufólk horfir til framtíðar búsetu og búsetuskilyrða. Sveitarfélag sem býr að góðum leik- og grunnskólum er eftirsóknarvert sveitarfélag sem laðar að fólk til búsetu.

Leikskólinn Krakkaborg er staðsettur í Þingborg. Á síðustu árum hefur leikskólahúsnæðið verið byggt upp og lóð leikskólans lagfærð nokkuð. Þarna sjáum við fyrir okkur framtíðar staðsetningu leikskólans. Í Krakkaborg er tekið við börnum strax að loknu fæðingarorlofi sem er framúrskarandi þjónusta og verður að teljast stór kostur þegar fjölskyldur velja stað til að búa á. Ég tala af reynslu þegar kemur að þessum þætti en þetta auðveldaði mér ákvörðunina að flytja úr mínum heimabæ og í Flóahrepp. Faglegt starf í leikskólanum hefur verið gott og við munum leggja upp með að styðja áfram vel við starfið og skapa aðstæður til að efla það enn frekar. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og mikilvægur undirbúningur fyrir það sem koma skal. Gott og faglegt starf sem og þverfagleg þekking starfsmanna leiðir til betri þjónustu og kennslu yngstu kynslóðarinnar sem svo skilar sér í undirbúningi fyrir frekara nám í grunnskólanum.

Flóaskóli er vel búinn og öflugur grunnskóli. Þar stunda nemendur í 1.-10. bekk grunnskólanám sitt. Skólinn hefur, allt frá stofnun hans 2004, staðið framarlega í kennslu og stuðningi við nemendur og hefur skilað af sér öflugum einstaklingum sem margir hverjir eru áberandi og sterkir einstaklingar í samfélaginu. Starfsfólk Flóaskóla hefur metnað fyrir því að skapa framúrskarandi aðstæður til náms og þroska og því þarf að viðhalda áfram með stuðningi og góðu samstarfi við sveitarfélagið. Á kjörtímabilinu er fyrirhugað að hefjast handa við stækkun Flóaskóla og uppbyggingu á skólalóð til að mæta auknum nemendafjölda í skólanum.

Krakkaborg og Flóaskóli eru Grænfánaskólar sem er umhverfismenntaverkefni rekið af Landvernd. Það þýðir að skólarnir starfa eftir ákveðnum reglum varðandi umhverfismál og þurfa að standast skoðun á því annað hvert ár. Þetta verkefni eykur kennslu og umræðu um umhverfismál hjá börnunum okkar sem skilar sér út í samfélagið seinna meir. Þau fá kennslu í umhverfismálum og sjálfbærni og læra um mikilvægi þess að gera allt sem við getum til skila jörðinni í eins góðu ástandi og við getum þannig að komandi kynslóðir geti átt gott líf áfram. Framfaralistinn leggur áherslu á að fræðsla í umhverfismennt verði áfram stór þáttur af skólagöngu allra barna í Flóahreppi.

Á landsvísu eru fræðslu- og uppeldismál stærsti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélaga og þar er Flóahreppur engin undantekning. Rekstur skóla er kostnaðarsamur en við erum að fjárfesta í framtíðinni – börnunum okkar.

Það er okkur í Framfaralistanum mikilvægt að stuðla áfram að góðu starfi í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins, hlúa að góðri aðstöðu til náms og starfa og styðja við það öfluga starf sem fer fram í menntastofnunum sveitarfélagsins.

Walter Fannar Kristjánsson, Litlu-Reykjum skipar 3. sæti Framfaralistans í Flóahreppi

Walter Fannar, Litlu-Reykjum

FÖRUM VARLEGA EN DJARFLEGA

Kæru sveitungar senn líður að kosningum. Uppskeruhátíð lýðræðissamfélaga þar sem því er ráðið til lykta hverjir bera þá ábyrgð að taka sæti við stjórnvölinn. Nú er það blessunarlega svo að við kjósendur veljum úr hópi þeirra sem hafa boðið fram tíma sinn og þekkingu. Sveitarstjórn þarf að samanstanda af einstaklingum sem þekkja sín gildi og hafa skýra samfélagssýn. Aðeins þannig geta þeir þjónað samfélaginu og tekið ákvarðanir til heilla og framfara. Með eftirfarandi orðum vil ég freista þess að varpa ljósi á sýn mína og gildi, ég vil einnig hvetja lesendur til ábyrgðar að nýta kosningarétt sinn. Lýðræðið er á okkar ábyrgð.

Nú hef ég boðið fram krafta mína með því að taka 4.sæti Framfaralistans. Ég sækist þar með eftir því að bera ábyrgð og um leið hafa áhrif til hins betra. Þetta geri ég vegna áhuga míns um gott samfélag. En hvað er gott samfélag?

Því er ekki svarað með einföldum hætti en byggist væntanlega á mörgum samverkandi þáttum. Þar má nefna fjölskylduvænt umhverfi þar sem utanumhald skóla og æskulýðsstarfs er vel skipulagt. Staðinn sé vörður um öryggi og forvarnir til handa ungmennum okkar og æskulýð. Ég trúi því að í samfélagi þar sem hver einstaklingur skiptir máli og fær jákvæða athygli og hvatningu til góðra verka sé fólgin mikil forvörn gegn neikvæðum áhrifum sem því miður herja á okkur á hverjum tíma.

Það er ekki síst þess vegna sem við í Framfaralistanum ætlum að skoða að ráðinn verði æskulýðs- og tómstundafulltrúi á kjörtímabilinu til að sinna ungmennum okkar og öðrum skjólstæðingum samfélagsins. Þetta teljum við vera skynsama og jákvæða fjárfestingu í framtíðina.

Aðstaða til íþrótta- og menningariðkunar þarf að stórbatna og ég tel að með uppbyggingu íþrótta- og menningar seturs verði lagður grunnur að raunverulegri lýðheilsustefnu þar sem Flóahreppur gefur félagasamtökum og einstaklingum færi á að bjóða upp á margbreytilega og uppbyggjandi starfsemi.

Menning og gott samfélag Menningarhugtakið getur lýst bæði jákvæðum og neikvæðum athöfnum. Það er hins vegar okkar skylda sem einstaklinga að fylla hugtakið jákvæðri merkingu. Góðar hugsanir framkalla góð orð sem við færum í góðar athafnir.

Menning er einstök í litlum samfélögum og að henni þarf að hlúa með því að hvetja íbúa til virkrar þátttöku. Einnig með því að skapa vettvang til samveru, fræðslu og skemmtunar. Menningarnefnd er eitt þeirra verkfæra sem við höfum til að halda uppi skipulagðri menningarstarfsemi. Ég er stolt af því að hafa farið með formennsku í þeirri nefnd á líðandi kjörtímabili og er þakklát fyrir samstarfið þrátt fyrir erfiðar aðstæður á tímum heimsfaraldurs. Það er stefna okkar hjá Framfaralistanum að sameina æskulýðs-, íþrótta- og menningarstarfið. Þannig teljum við að hægt sé að setja skýrari markmið og ná fram góðri hagræðingu.

Það er markmið mitt sem frambjóðanda að standa vörð um það sem hreif mig sem mest við fyrstu kynni mín af okkar góða samfélagi. Þar langar mig helst að nefna fjölskyldu- og menningarviðburði þar sem við gleðjumst saman með ábyrgum hætti og með þátttöku ungra sem aldraðra. Ungur nemur, gamall temur.

Stuttar boðleiðir, lausnamiðuð stjórnsýsla og fjárhagslegur stöðugleiki

Það er afar mikilvægt að kerfið þjóni fólkinu og ég tel það skyldu mína, hlotnist mér það traust að taka sæti í sveitarstjórn Flóahrepps, að stuðla að lipurð og ráðvendni í þjónustu minni við íbúa sveitarfélagsins. Stöðugleiki og ábyrg stjórnun er nokkuð sem hafa ber að leiðarljósi í rekstri sveitarfélags og þau gildi er ég einnig tilbúin að varða. Það væri óábyrgt að líta undan því að kostnaður fylgir framkvæmdum og annarri opinberri þjónustu, þess vegna vil ég með víðsýni leita leiða til að auka atvinnustarfsemi í Flóahreppi og er sannfærð að vel sé hægt að skapa aðlaðandi tækifæri fyrir starfsemi sem skilar okkur arði.

Ég vil hvetja alla kosningabæra að taka þátt í mótun og stjórnun okkar góða Flóahrepps með því að nýta kosningarétt sinn sem er undirstaða lýðræðis.

Merkjum X við I.

Með virðingu og vinsemd,

Sigrún Hrefna Arnardóttir

Ferðaþjónustubóndi, kjólaklæðskeri og frambjóðandi Framfaralistans, 4. sæti.

Sigrún Hrefna Arnardóttir, Skyggnisholti


Árni Eiríksson skrifar:

Af hverju setja sveitarfélög fé og tíma í skipulagsvinnu og fara fram á það sama af framkvæmdaaðilum?

Gerð aðalskipulags:

Á sveitarfélögum hvílir skipulagsskylda samkvæmt lögum og er aðalskipulag eitt af megin stefnuskjölum sveitarstjórnar hverju sinni enda mikið lagt í gerð aðalskipulags.

Í upphafi kjörtímabils ber sveitarstjórn að taka ákvörðun um hvort farið verði í endurskoðun aðalskipulags á kjörtímabilinu. Sé það ákveðið fær sveitarstjórn fagaðila til að halda utanum vinnuna og gæta þess að plaggið taki til allra þeirra þátta sem því ber að gera, auk þess sem íbúum og landeigendum gefst kostur á að koma að málum á öllum stigum verksins. Haldnir eru fundir bæði með minni hópum og aðrir opnir fyrir alla og skipulagið margauglýst á vinnslutíma svo sem flestum gefist tækifæri til að koma væntingum sínum og skoðunum á framfæri um hvernig framtíðarskipulagi sveitarfélagsins verði háttað.

Á vinnslutíma eru gögn send á ýmsa opinbera aðila til umsagnar og þeim gefinn kostur á að koma að borðinu. Að lokinni vinnu heimafyrir fer skipulagið til endanlegrar samþykktar í ráðuneyti skipulagsmála hverju sinni.

Þegar aðalskipulag hefur fengið samþykki ráðherra er það orðið stefnumarkandi plagg sem sveitarstjórn og íbúum ber að fara eftir við sínar skipulagsákvarðanir.

Deiliskipulagsgerð:

Gerð deiliskipulags er á hendi landeigenda en ekki er gerð krafa um það þegar um minniháttar framkvæmdir er að ræða, en hyggi fólk á stærri framkvæmdir eða verulega uppbyggingu er um að gera að fara sem fyrst í gerð deiliskipulags og láta þar alla uppbyggingu koma fram sem hugur fólks stendur til að ráðast í. Framlagt skipulag fer svo í ferli auglýsinga og umsagna þar sem bæði nágrönnum og opinberum aðilum er kynnt málið sérstaklega og kallað eftir viðbrögðum þeirra. Komi upp sú staða að heimildir innan skipulags gangi lengra en heimildir aðalskipulags leyfa er hægt að óska breytinga á aðalskipulagi sem, sé hún samþykkt, fær þá sömu málsmeðferð og gerð aðalskipulags hvað varðar kynningu svo allir séu meðvitaðir og geti komið ábendingum á framfæri.

Að eiga tilbúið skipulag af landi flýtir mjög allri málsmeðferð hjá byggingafulltrúa þegar kemur að framkvæmdum þar sem allri kynningu er lokið á fyrri stigum og ljóst hvað má byggja.

Afmörkun lands/ lóðablöð:

Á undanförnum árum hefur sem betur fer fjölgað mjög lóðum og lendum sem hafa verið hnitsettar og fengið sín mörk þinglýst samkvæmt því, en þó er enn talsvert ógert í því og ástæða til að hvetja landeigendur til að láta vinna fyrir sig lóðablöð sem svo fá uppáskrift eigenda aðliggjandi lendna. Þetta er vinna sem skilar sér til framtíðar varðandi breytingar á landnotkun eða möguleg eigendaskipti.

Flóahreppur rekur ásamt fimm öðrum sveitarfélögum UTU, Umhverfis og tæknisvið uppsveita, sem annast skipulags- og byggingamál á svæðinu. Þar starfar hópur fólks með breiða fagþekkingu í málaflokkunum sem nýtist svæðinu vel.

Sveitarfélögin eiga hvert sinn fulltrúa í skipulagsnefnd sem fundar aðra hverja viku og fer yfir mál sem þarfnast afgreiðslu og sendir sínar niðurstöður til fullnaðar afgreiðslu á sveitarstjórnir sem eiga lokaorðið í þessum málum.

Framfaralistinn hvetur þá sem hyggja á framkvæmdir til að hefja skipulagsvinnu svo fljótt sem mögulegt er þar sem allar viðbætur eða breytingar á áður samþykktu skipulagi taka tíma. Eins hvetur Framfaralistinn íbúa til að fylgjast með og kynna sér auglýstar breytingar á skipulagi og koma á framfæri ef þeir hafa athugasemdir eða ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara. Einnig er fáséð að send sé hvatning til skipulagsaðila en er ánægjulegt þegar slíkt gerist.

Árni Eiríksson skipar 1. sæti á Framfaralistanum í Flóahreppi

Árni Eiríksson, Skúfslækur Norðurbær

Hulda Kristjánsdóttir skrifar:

Framtíðin er í Flóahreppi

Nú líður senn að sveitarstjórnarkosningum. Þá gefst kjósendum kostur á að velja sér þá fulltrúa sem þeir treysta best til að fara með stjórnun, ákvarðanatöku og fjárheimildir síns sveitarfélags til næstu fjögurra ára. Þetta val skiptir mál – miklu máli!

Í Flóahreppi búa rétt um 700 íbúar, lítið á landsmælikvarða en engu að síður vaxandi sveitarfélag á svo margvíslegan hátt. Hér hefur íbúum fjölgað jafnt og þétt síðustu árin. Leikskóli og grunnskóli hafa byggst upp og staðan orðin sú að huga þarf að stækkun á báðum stöðum til að mæta nauðsynlegri þjónustu og innviðum sem snúa að börnum í sveitarfélaginu. Komin er framtíðarsýn varðandi uppbyggingu íþrótta- og samkomuhúss sem nýtast mun íbúum sveitarfélagins á öllum aldri.

Þessari framtíðarsýn, sem helst í hendur við uppbyggingu innviða og þjónustu, þarf að fylgja vel eftir og á skynsaman hátt með réttri forgangsröðun. Það sem kann að ýta við og hraða þessari uppbyggingu eru áform um uppbyggingu í formi íbúðabyggðar ásamt hugmyndum um byggðakjarna við Þingborg á landi sveitarfélagins. Allt eru þetta hugmyndir um jákvæðar breytingar sem geta skilað sveitarfélaginu sterkari tekjustofni til lengri tíma litið.

En það er ekki bara fjölgun íbúa sem er í vexti heldur sjáum við fjölbreytta atvinnustarfsemi blómstra víða í sveitarfélaginu okkar. Fyrirtæki í iðngreinum, þjónustu- og framleiðslufyrirtæki og ferðaþjónusta ásamt fjölbreyttum landbúnaði eru dæmi um atvinnustarfsemi sem sum hefur sprottið upp síðustu árin. Sveitarfélagið þarf að hlúa vel að fjölbreyttri atvinnustarfsemi, ýta undir fjölgun starfa innan sveitarfélagins og stuðla að atvinnuþátttöku og fjölbreytni í störfum. Það er einn af grunnþáttum hvers samfélags að íbúar búa við sem mest atvinnuöryggi. Í þessu samhengi þarf einnig að líta til þeirrar staðreyndar að samsetning íbúa í dreifbýli og atvinna þeirra hefur breyst síðustu árin. Í Flóahreppi er meðalaldur íbúa 38,3 ár og sækja þeir margir vinnu utan sveitarfélags sem kallar á breyttar þarfir og þjónustu.

Þá er mikilvægt að stuðla að því að börn, ungmenni og íbúar með sérstakar þarfir í sveitarfélaginu búi við jafnræði þegar kemur að því að stunda íþróttir, tómstundir og annað félagsstarf. Með því að stuðla að aukinni þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er góður undirbúningur fyrir lífið og þannig eflum við einnig forvarnir. Við þurfum að gera það sem við getum til að börn og ungmenni í sveitarfélaginu feti rétta braut í lífinu og styðja við fjölskyldur eins og mögulegt er til að svo verði og er samfella í námi og tómstundum barna mikilvægur þáttur til að ná fram þeim markmiðum. Frekari uppbygging innan okkar sveitarfélags getur haft mikið að segja við að efla þátttöku barna, ungmenna og eldra fólks í sveitarfélaginu.

Það eru tækifæri í byggingu íþrótta- og samkomuhúss, frekari eflingu á félagsstarfi fyrir íbúa á öllum aldri og í stuðningi sveitarfélagsins við uppbyggingu á útisvæðum innan sveitarfélagsins til að efla almenna lýðheilsu.

Flóahreppur hefur staðið framarlega að mörgu leyti þegar horft er til umhverfismála. Við vorum með fyrstu sveitarfélögum landsins til að fara í flokkun á sorpi og höfum staðið okkur ágætlega þar. En betur má ef duga skal. Við þurfum að horfa á leiðir til að stuðla enn frekar að umhverfisvitund íbúa sveitarfélagsins, til dæmis með því að bæta okkur enn frekar í sorpflokkun en einnig með því að skoða hvernig við getum orðið sjálfbærara og umhverfisvænna samfélag.

Flóahreppur á að vera sveitarfélag sem leggur áherslu á að vera umhverfisvænt, heilsueflandi og aðlaðandi staður til að búa á og heimsækja. Við getum gert enn betur í að kynna sveitarfélagið sem spennandi áfangastað með uppbyggingu á opnum svæðum sveitarfélagsins og frekari kynningu á áhugaverðum og sögulegum stöðum.

Flóahreppur varð til árið 2006 við sameiningu þriggja sveitarfélaga. Hér er ég fædd og uppalin en í dag bý ég í Flóahreppi ásamt 698 sveitungum mínum. Ég ber hag alls sveitarfélagsins fyrir brjósti og vil að við höldum áfram að efla og styrkja sveitarfélagið og gera það að áhugaverðum áfangastað og búsetukosti þar sem þjónusta og innviðir haldast í hendur við fjölgun íbúa.

Brennandi áhugi á samfélgsmálum þarf að vera til staðar þegar fólk gefur sig fram á lista til sveitarstjórnarkosninga. Íbúarnir mynda allir eitt og sama sveitarfélagið og ég trúi því að þeir sem gefa sig fram til að taka að sér þessi verkefni geri það af heilindum og með þarfir og framtíðarsýn alls sveitarfélagsins í huga.

Hulda Kristjánsdóttir er sveitarstjóraefni Framfaralistans í Flóahreppi og skipar jafnramt 2. sæti á listanum.  

Hulda Kristjánsdóttir, Forsæti 2