Frambjóðendur Framfaralistans í Flóahreppi

1. sæti Árni Eiríksson 55 ára Skúfslæk II Norðurbæ

Hópstjóri verklegra framkvæmda hjá Landgræðslunni og oddviti sveitarstjórnar Flóahrepps

Í verkum mínum stend ég fyrir ábyrgð, Jafnræði og sanngirni.

Ég vil standa að og taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og tryggja grunnþjónustu til framtíðar.

Ég hef mikinn áhuga á sveitarstjórnarmálum og brenn fyrir því að gera gott samfélag enn betra. Ég hef reynslu á þessum vettvangi sem ég tel að nýtist til góðs þegar kemur að þeim stóru verkefnum sem framundan eru við áframhaldandi uppbyggingu innviða og skipulag nýrra svæða til íbúðar og atvinnu.

2. sæti

Hulda Kristjánsdóttir, 38 àra Forsæti 2

Rekstrarstjóri LAVA centre

Ég stend fyrir framsýni, dugnaði og metnaði í þeim störfum sem ég tek mér fyrir hendur.

Ég vil að íbúar búi við góða þjónustu frá sveitarfélaginu og skilvirka, vandaða og nútímavæna stjórnsýslu.

Ég vil að kraftur sé settur í uppbyggingu og framkvæmdir í sveitarfélaginu til að laða að og þjónusta nýja íbúa og fjölbreytta atvinnustarfsemi og stækka þannig tekjustofna sveitarfélagsins til lengri tíma.

Ég vil að stutt sé við menningar- og kynningarmál og að börn og ungmenni í sveitarfélaginu búi við jafna möguleika burtséð frà búsetu þegar kemur að íþróttum, tómstundum og félagsstarfi.

Hér eru æskuslóðir mínar og líka framtíð fjölskyldu minnar. Ég brenn fyrir málefnum og þróun sveitarfélagsins og vil leggja krafta mína, metnað og vinnusemi í að byggja upp enn betra samfélag fyrir okkur öll.

3. sæti

Walter Fannar Kristjánsson, 33 ára Litlu-Reykir

Lærlingur hjá Þorvaldi stórbónda.

Ég stend fyrir skilvirkni, gleði og samvinnu.

Mig langar að sjá sveitarfélagið stækka og eflast. Hér er margt gott en mig langar að láta Flóahrepp skara framúr. Hvort sem það er í þjónustu við íbúa eða sem eftirsóknarverður staður fyrir fyrirtæki að hafa sína starfsemi.

Ég hef haft áhuga á pólitík síðan ég var unglingur. Mér finnst gaman að hitta fólk og að ræða við fólk. Það er gaman að maður geti haft áhrif á nærsamfélagið og vonandi gert hlutina þægilegri fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.

4. sæti

Sigrún Hrefna Arnardóttir 47 ára Skyggnisholti

Ferðaþjónustubóndi.

Ég stend fyrir stöðugleika fyrir fjölskyldur vil barnvænt samfélag, með áherslu á öflugt íþrótta, æskulýðs og menningarstarf. Ég vil sjá stórbætta aðstöðu til íþróttaiðkunar, heilsueflingar og menningarstarfs. Einnig vil ég aukna atvinnu möguleika í Flóahreppi ásamt bættu þjónustustigi við núverandi atvinnurekstur.

Ég vil láta gott af mér leiða og taka virkan þátt í mínu samfélagi.

5. sæti

Haraldur Einarsson, 34 ára Urriðafossi

Bóndi

Í mínum störfum hef ég lagt áherslu á skipulag, metnað, dug og samvinnu.

Sveitarfélagið okkar stendur vel fjárhagslega og er ágætlega í stakk búið til að mæta áskorunum og tækifærum í náinni framtíð. Uppbyggingar er þörf bæði í þjónustu við íbúa en ekki síður til að styrkja tekjustofna og fjölgun íbúa.

Ég hef áhuga á samfélginu okkar og það er mikill kraftur í Flóanum. Ég vil leggja mitt af mörkum til að sveitarfélagið þróist í takt við þarfir íbúa. Ég vil allt annað en stöðnun, því stöðnun er afturför.

6. sæti

Helena Hólm 58 ára Skálatjörn

Ferðaþjónustu og geitabóndi

Ég stend fyrir að allir hafi sama rétt til búsetu í Flóhreppi og hér sé gott að búa. Meiri þjónustu og afþreyingu fyrir eldri borgara og öryrkja. Börn fái áfram viðunandi kennslu og aðstoð ef með þarf,og að leikskólinn leiði áfram börnin inn í skólanna með skýra þarfagreiningu fyrir hvern og einn nemanda.

Framfarir verði í uppbyggingu vegagerðar, reiðstíga, hjólastíga og betri þjónusta í snjómokstri fyrir atvinnurekendur og íbúa í Flóahreppi.

Haldið verði áfram að vera leiðandi í umhverfismálum með áframhaldandi flokkun á sorpi, gróðursetningu trjáa og unnið að því markvisst að hver og einn íbúi getur tekið þátt í að kolefnisjafna, einnig að leggja áherslu á útivistarsvæði t.d skógræktina.

Ég býð fram krafta mína til að geta haft áhrif á mitt nærumhverfi því hér vil ég eldast og eiga gott ævikvöld til æviloka.

7. sæti

Sveinn Orri Einarsson 26 ára Egilsstaðakot

Vélfræðingur hjá GB bílum í Flóahreppi.

Það eru spennandi tímar framundan í Flóahreppi og vil ég sjá breiða fylkingu fólks á lista.

Ég vil sjá uppbyggingu við Flóaskóla, íþróttahús og almenna uppbyggingu í sveitarfélaginu, að við stöndum vörð um okkar góða sveitafélag sem á framtíðina fyrir sér.

Ég hef mikinn áhuga á að vinna í góðum hóp og byggja upp gott samfélag og geta sagt stoltur að það sé best að búa í Flóahreppi!

8. sæti

Jakob Nielsen Kristjánsson, 35 ára Ísólfsskáli

Rekstraraðili og bifvélavirki á bifvélaverkstaæðinu Ljónsstöðum

Ég vil sýna metnað og samstöðu í störfum mínum Ég vil tryggja að innviðir sveitarfélagsins stækki í takt við fjölgun íbúa. Mér finnst mikilvægt að auka möguleika fyrirtækja á því að koma með starfsemi sína í Flóahrepp.

Ég vil taka þàtt í að styðja við það góða starf sem hefur verið hér í sveitarfèlaginu.

9. sæti

Rúnar Magnússon 44 ára Súluholti

Húsasmiður og nemi í Byggingariðnfræði við HR

Ég stend fyrir áframhaldandi skynsemi í rekstri sveitarfélagsins og vil standa vörð um grunnstoðir þess. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að hafa skuldir í lágmarki og horfa stöðugt eftir tækifærum til tekjuöflunar.

Það þarf að taka vel á móti nýjum íbúum og tryggja að sveitarfélagið bjóði bestu þjónustu sem völ er á hvort sem það eru skólamál, atvinnumál, umhverfismál eða annað.

Það þarf að vanda til verka með úthlutun lóða og passa að öll uppbygging sé hugsuð til enda.

Ég er stuðningsmaður þess að stuðla að uppbyggingu og gera Flóahrepp eftirsóknarverðan fyrir fólk og fyrirtæki.

10. sæti

Margrét Jónsdóttir 57 ára Syðri-Völlur

Bóndi og verslunarstjóri í Ullarversluninni Þingborg.

Ég hef starfað í sveitarstjórn frá árinu 2014.

Ég hef áhuga á mínu samfélagi og vil taka virkan þátt í að móta það og gera það betra. Allir sem starfa í sveitarstjórn þurfa að hafa í huga velferð og jafnræði íbúa, bera hag heildarinnar fyrir brjósti og gefa af sér til góðra verka. Ég vona að mér hafi tekist það á s.l. átta árum.

Framundan er mikill uppbyggingartími í Flóahreppi og þeir sem taka við keflinu eftir kosningar þurfa að hafa framsýni, sýna dugnað og starfa af ábyrgð. Ég treysti öllum sem eru á Framfaralistanum með mér til þess og ég mun áfram leggja mitt lóð á vogarskálarnar.