Stefnuskrá Framfaralistans í Flóahreppi
Fjármál
Ábyrg fjármálastjórnun.
Lögð áhersla á að forgangsraða þannig að grunnþjónusta við íbúa sé tryggð eins og kostur er.
Uppbygging og framkvæmdir
Skipulagsvinna, þarfagreining og hönnun á íþróttahúsi verði kláruð á kjörtímabilinu og framkvæmdir hafnar.
Viðbygging við Flóaskóla kláruð og farið í endurbætur á skólalóð. Nemendum og starfsfólki þannig tryggð fullnægjandi aðstaða til náms og starfa.
Lögð verði drög að viðbyggingu við leikskólann í Þingborg og að bættri aðstöðu fyrir leikskólakennara.
Fyrsti hluti skipulags íbúðabyggðar við Þingborg fari af stað.
Uppbygging á lóðum sveitarfélagsins haldist í hendur við uppbyggingu á innviðum sveitarfélagsins svo sem vatnsveitu, fráveitu, stækkun leikskóla við Þingborg og uppbygging við Flóaskóla.
Horft verði á að nýta þá möguleika sem skapast við nýtt brúarstæði við Ölfusá.
Sveitarfélagið stuðli að framboði á lóðum fyrir atvinnustarfsemi.
Byggingum og veitum sveitarfélagsins verði áfram viðhaldið.
Framkvæmda- og veitunefnd verði áfram starfandi á kjörtímabilinu.
Landbúnaðar- og atvinnumál
Stuðlað verði að umhverfisvænni, fjölbreyttri og áhugaverðri atvinnustarfsemi.
Stutt verði vel við landbúnað sem mikilvæga atvinnugrein.
Fjölbreytt ferðaþjónusta fái að blómstra í sveitarfélaginu.
Flóahreppur verði góður og áhugaverður staður fyrir atvinnurekendur í nýjum sem og rótgrónum rekstri.
Stutt verði við og stuðlað að uppsetningu bændamarkaðar sem nýtist sem kynning á vörum og þjónustu í sveitarfélaginu.
Atvinnu- og landbúnaðarnefnd verði starfandi á kjörtímabilinu sem hefur meðal annars það hlutverk að vinna náið með búnaðarfélögum og atvinnurekendum.
Umhverfismál
Sveitarfélagið hafi meiri aðkomu að uppbyggingu á útivistarsvæðum og opnum svæðum sveitarfélagsins.
Áhersla verði lögð á að vernda gott landbúnaðarland.
Skipulag sorphirðu verði endurskoðað til að auka þjónustu og kynnt vel fyrir íbúum.
Flóahreppur skari fram úr í sorpflokkun og gott skipulag ýti undir og hvetji íbúa til að flokka sem mest.
Aðstaða og fyrirkomulag vegna afsetningar dýrahræja verði endurskoðað og úrbætur gerðar.
Sveitarfélagið marki sér stefnu varðandi kolefnisjöfnun og ljúki við gerð loftslagsstefnu.
Komið verði upp hleðslustöð við Flóaskóla til að stuðla að umhverfisvænni ferðamáta starfsfólks.
Farið verði af stað við uppfærslu og vinnu við merkingar á áhugaverðum gönguleiðum, sögufrægum áfangastöðum og náttúrufyrirbærum á svæðinu.
Umhverfisnefnd hafi forystu í þessum málum.
Samgöngu- og öryggismál
Komið verði á skilvirku og árangursríku skipulagi á snjómokstri og bættri vetrarþjónustu.
Þrýst verði á Vegagerðina varðandi umbætur og uppbyggingu á vegum í sveitarfélaginu.
Farið verði í herferð í að bæta umferðarmerkingar til að auka öryggi íbúa og vegfarenda.
Sveitarfélagið leiðbeini og aðstoði íbúa varðandi rétt til girðinga og lagfæringa á heimreiðum.
Þrýst verði á fjarskiptafyrirtæki á svæðinu að bæta símasamband til að auka öryggi íbúa og vegfarenda.
Umhverfis- og samgöngunefnd verði starfandi á kjörtímabilinu.
Velferðarmál
Unnið verði að því að bæta enn frekar skipulag vegna heimaþjónustu.
Sveitarfélagið standi vörð um búsetu & félagslega þjónustu hjá einstaklingum með sértækar þarfir.
Áhersla verði lögð á að skoða leiðir til að stytta bið eftir félagslegri liðveislu.
Sveitarfélagið styðji við skóla og félagsþjónustu vegna innleiðingar Farsældarlaga sem tóku gildi í janúar 2022 og þrýsti á frekara fjármagn frá ríkinu.
Skoðaður verði möguleiki á félagslegum íbúðum við Þingborg eða leiguíbúðum.
Unnið verði faglega að þeirri breytingu á barnarverndarlögum sem taka gildi 1. október 2022
Fræðslu- og uppeldismál
Stutt áfram við góða og öfluga skóla sem laða að fólk til búsetu.
Lögð verði áhersla á að tónlistarnám geti farið fram innan Flóaskóla.
Stutt sé við áframhaldandi gott samstarf nemenda og starfsmanna leik- og grunnskóla.
Lögð verði áhersla á að ekki myndist biðlisti á leikskólanum.
Áfram verði rekin ungbarnadeild sem mætir þörfum foreldra.
Leitað verði leiða til að styðja við fjölskyldur í sveitarfélaginu t.d. með því að halda aftur af hækkun leikskólagjalda og vistunargjalda í lengdri viðveru.
Skoðaður verði möguleiki á morgunhressingu fyrir allan aldur í Flóaskóla og að aðstaða fyrir nemendur sem koma með nesti verði bætt.
Stutt verði við tækniframþróun og búnað til kennslu í tækni og nýsköpun.
Lögð verði áhersla á að stytta viðveru barna í skólabíl og að skólaakstur verði í stöðugri endurskoðun út frá þörfum nemenda, lögum og reglugerðum.
Öflug fræðslunefnd sem styður við skólastarfið.
Íþrótta- æskulýðs og menningarmál
Áfram verði stutt við kvenfélögin og tryggt að þau hafi aðstöðu til sinna starfa.
Framlag til menningarhátíða hækkað og viðburðir innan sveitarfélagins efldir enn frekar.
Haldið verði áfram að styrkja og þróa starf félagsmiðstöðvarinnar.
Fundnar verði leiðir til að nýting á félagsheimilunum verði góð og að hvert hús þjóni hlutverki.
Skoðaðar verði leiðir til þess að öll börn geti nýtt akstur skólabíla á Selfoss til að jafna aðstöðu og aðgengi barna og ungmenna að félags- íþrótta- og tómstundastarfi.
Stuðlað verði að frekari eflingu á félagsstarfi ungmenna, bæði innan sveitarfélags og utan.
Viðhalda öflugu og góðu samstarfi við ungmennafélagið Þjótanda.
Opnað verði fyrir hvatastyrki vegna tónlistarnáms.
Stutt verði við starf kirkjukóra sem eru mikilvægir fyrir samfélagið og menningu okkar.
Íþrótta- æskulýðs- og menningarnefnd verði ein og sama nefndin og hafi meðal annars það hlutverk að samræma og skipuleggja verkefni sem snúa að Þjótanda, kvenfélögum, tómstundum og nýtingu á félagsheimilum sveitarfélagsins.
Heilsueflandi samfélag
Mótuð verði skýr og ákveðin stefna í anda heilsueflandi samfélags hjá sveitarfélaginu með það að markmiði að auka og viðhalda vellíðan íbúa.
Hugað verði að heilsueflandi þáttum í öllu skólastarfi leik- og grunnskóla og í annarri starfsemi sveitarfélagsins.
60+ íbúar í sveitarfélaginu
Stuðlað verði að góðum búsetuskilyrðum fyrir íbúa í sveitarfélaginu þannig að íbúar velji að eldast í Flóahreppi.
Aðstaða í félagsheimilum verði nýtt fyrir íbúa til að efla félagslíf og heilbrigði svo sem hreyfingu, fyrirlestra og samveru. Síðar verði íbúum tryggður aðgangur að íþróttahúsi sveitarfélagsins.
Áfram verði stuðlað að samstarfi við nágrannasveitarfélög varðandi málefni íbúa ásamt eflingu innan sveitarfélags.
Gerð verði tilraun með að bjóða upp á heitan mat í mötuneytum sveitarfélagsins fyrir íbúa sem það kjósa.
Annað
Nái Framfaralistinn meirihluta mun sveitarstjóri koma af framboðslistanum.
Sveitarstjóri verður búsettur í sveitarfélaginu og á sæti í sveitarstjórn.
Nái Framfaralistinn meirihluta verður farið í skipulagsbreytingar á verkefnum oddvita og varaoddvita á kjörtímabilinu.
Sveitarstjórnarmenn deili meira með sér verkefnum og nefndir fái aukið hlutverk í stjórnsýslunni.
Samstarfsverkefni og byggðasamlög séu í stöðugri endurskoðun.
Nefndir sveitarfélagsins verði skipaðar breiðum og fjölbreyttum hópi fólks.
Lögð verði áhersla á upplýsingagjöf, nútímavænni og skilvirkari stjórnsýslu.