May. 4, 2022

Sveitarstjóraefni Framfaralistans í Flóahreppi

Eitt af stefnumálum Framfaralistans í Flóahreppi er að tefla fram sveitarstjóraefni af listanum. Sveitarstjóri væri þá einnig sitjandi sveitarstjórnarmaður og fer því með pólitíska ábyrgð ásamt því að vera framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og starfar þá sem slíkur í umboði kjósenda og sveitarstjórnar.

Þetta teljum við vera lýðræðislega leið þar sem kjósendur velja í senn sveitarstjórnarmenn ásamt því að hafa bein áhrif á val um sveitarstjóra. Þannig teljum við að bein áhrif íbúa séu aukin og er það vel.

Sveitarstjóraefni Framfaralistans í komandi kosningum er Hulda Kristjánsdóttir sem skipar 2. sæti á listanum okkar. Þessi ákvörðun var tekin af frambjóðendum Framfaralistans ásamt baklandi og stuðningsmönnum við undirbúning framboðsins. Hópurinn velti upp kostum og göllum við þessa leið og varð niðurstaðan sú að kostirnir væru ótvíræðir.

Rökin með ákvörðun má draga upp með eftirfarandi hætti:

  • Sveitarstjóri sem situr jafnframt sem sveitarstjórnarmaður er vel upplýstur um málefni líðandi stundar, jafnt pólitískum sem og daglegum verkefnum sveitarfélagsins.

  • Á þennan hátt gefst okkur kostur á verkefnadreifingu sem leiðir til hagræðingar þegar kemur að fundum í samstarfsnefndum og byggðasamlögum þar sem sveitarstjóri getur þá tekið pólitískar ákvarðanir sem og ákvarðanir sem snúa að beinum daglegum rekstri málaflokka og verkefna.

  • Í ljósi þess að sveitarstjóraefni Framfaralistans er búsettur í sveitarfélaginu mun hann greiða útsvar sitt til Flóahrepps sem í öllu falli er jákvætt.

  • Háar fjárhæðir sparast varðandi ráðningu sveitarstjóra.

  • Staðbundin þekking og skilvirkni. Sveitarstjóraefni okkar þekkir til sveitarfélagsins: íbúa, land- og staðhátta, sögu og menningar sveitarfélagsins. Þarna sparast mikill tími sem utanaðkomandi sveitarstjóri þyrfti að byrja á að setja sig inn í.

  • Sem dæmi um skilvirkni mætti nefna komandi framkvæmdir við Flóaskóla og á lóð skólans og þessar framkvæmdir þurfa að ganga hratt og vel fyrir sig. Við teljum að með því að skipa sveitarstjóra sem þekkir til aðstæðna og verkefnisins verði betra flæði í framkvæmdunum sem fara af stað strax í sumar.

  • Skýr lagarammi er í kringum sveitarstjórn og ráðningu framkvæmdastjóra/sveitarstjóra, sbr. sveitarstjórnarlög nr. 138/2011. Þar kemur skýrt fram að sveitarstjóri megi koma úr röðum sveitarstjórnar og hafa þannig málfrelsi, tillögu og atkvæðisrétt á sveitarstjórnarfundum. Þó nokkur sveitarfélög af svipaðri stærð og Flóahreppur hafa farið þessa leið.

  • Lagaramminn er einnig skýr varðandi hæfi sveitarstjóra við meðferð mála er varða t.d. aðila sem honum eru tengdir og gilda þar sömu reglur og um aðra sveitarstjórnarmenn og þá aðila sem taka að sér nefndarstörf á vegum sveitarfélagsins.

En hver er Hulda?
Hulda er 38 ára og býr að Forsæti 2 í Flóahreppi ásamt eigimanni sínum Andra Þór Erlingssyni húsasmiði og fjórum börnum á aldrinum 6-16 ára. Þar er hún fædd og uppalin og er vel kunnug sveitarfélaginu, íbúum þess, menningu og mannlífi.

Hulda er með BSc gráðu í íþróttafræði við Kennaraháskóla Íslands og með kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi. Að auki hefur hún lokið hluta af meistaranámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands ásamt því að hafa bætt við sig þekkingu á stjórnun og rekstri sveitarfélaga á meistarastigi við Háskólann á Akureyri núna á vorönn.

Hún hefur setið í nefndum sveitarfélagsins og sinnt formennsku í fræðslunefnd auk þess að koma inn á allmarga sveitarstjórnarfundi sem varamaður í sveitarstjórn allt frá stofnun Flóahrepps árið 2006. Hún hefur að auki mikla reynslu úr félagsmálum.

Hún starfaði við Flóaskóla frá 2006-2010 sem kennari og svo sem deildarstjóri og síðar aðstoðarskólastjóri frá árunum 2010-2016. Hún hefur því töluverða reynslu af stjórnunarstörfum í grunnskóla og hefur svo starfað sem rekstrarstjóri LAVA eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöðvar á Hvolsvelli frá stofnun fyrirtækisins árið 2017 og sinnt margvíslegum og krefjandi verkefnum þar.

Við sem þekkjum Huldu vitum að hún er skipulögð, skörp og fljót að komast inn í mál og greina kjarnann frá hisminu. Hulda er ákveðin og dugleg en hún er líka sanngjörn í samskiptum við fólk og á gott með að setja sig inn í aðstæður þess.

Því fylgir alltaf ákveðin óvissa að auglýsa eftir sveitarstjóra og ráða með takmarkaða vitneskju um viðkomandi og getu hans til starfsins. Þar sem Hulda var tilbúin að gefa kost á sér í þessa ábyrgðarstöðu var ákveðið með hag sveitarfélagsins og íbúa þess í huga að leggja upp með hana sem sveitarstjóraefni Framfaralistans í sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí næstkomandi.

Fyrir hönd baklands og framboðslista Framfaralistans í Flóahreppi,
Árni Eiríksson, 1. sæti
Walter Fannar Kristjánsson, 3. sæti
Sigrún Hrefna Arnardóttir, 4. sæti
Haraldur Einarsson, 5. sæti