May. 13, 2022

Förum rétt með staðreyndir!

Í ljósi yfirlýsinga oddvita T listans viljum við leiðrétta ákveðnar rangfærslur:

Yfirstjórn Flóahrepps er með þeim hætti að sveitarstjóri fer með framkvæmdastjórn sveitarfélagsins og oddviti er í hlutastarfi sem er 45% af þingfararkaupi. Varaoddviti er með sama hluttfall af þingfararkaupi og aðrir sveitarstjórnarmenn eða 10%. Þessum hlutföllum hyggst Framfaralistinn ekki breyta á komandi kjörtímabili og engu bæta við. Hins vegar setur listinn fram þá hugmynd að deila verkefnum innan sveitarstjórnar, að varaoddviti sinni ákveðnum verkefnum sem hingað til hafa eingöngu verið á hendi oddvita og hlutfall launa minnkar þá á oddvita og færist yfir á varaoddvita. Þannig dreifum við einnig ábyrgðinni betur innan sveitarstjórnar án þess að auka kostnað.

Auk þess er nú sveitarstjóraefni á lista Framfaralistans, sem er nýlunda í Flóahreppi og sparast við það töluvert fjármagn sem annars hefði farið í kostnað við ráðningu sveitarstjóra. Það er lán okkar að hafa á að skipa áhugasömu hæfileikafólki sem er tilbúið og fært um að taka að sér yfirstjórn sveitarfélagsins, sem er mjög krefjandi verkefni og embætti sveitarstjóra Flóahrepps er fullt starf.

Ekki hefur verið gerð sú krafa hingað til að sveitarstjóri búi í sveitarfélaginu, enda vandséð hvernig það er hægt. Ekki er alltaf auðvelt fyrir fólk að færa sig til og ekki er endilega til það húsnæði í sveitarfélaginu sem hentar viðkomandi. Nái Framfaralistinn meirihluta í kosningunum á morgun, mun sveitarstjórinn hins vegar verða búsettur í sveitarfélaginu sem er einkar ánægjulegt.

Hlökkum til að sjá sem flesta á Fjöri í Flóa um helgina!
Frambjóðendur Framfaralistans x-i